Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 20:29:00 (3032)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég myndi hafa hljótt um hentistefnu ef ég væri hv. 17. þm. Reykv. En það er hans vandamál og ekki mitt.
    Hitt er annað mál að ég held að ekkert skorti á lestrarkunnáttu hv. þm. Hins vegar hefur verið haft á orði að lesskilningur yngri kynslóðarinnar væri nokkuð lélegur og ég verð að viðurkenna að það hryggir mig að maður sem er aðeins einu eða tveimur árum yngri en ég skuli tilheyra þessari yngri kynslóð sem engan skilning hefur á því sem hún les. Hann gerir sér nefnilega ekki grein fyrir því að það ,,að ráðstafa vegna ýmissa aðstæðna`` er léleg veiðileyfasala. Það er einfaldlega allt, allt annað sem þar býr að baki og það er mín helsta gagnrýni að ekki sé hægt samkvæmt lagabreytingum á Hagræðingarsjóði að ráðstafa veiðiheimildum þegar á þarf að halda. Ég veit ekki hvaða arður eða hvaða hagnaður og hvers konar auðlindaskattur kemur frá slíkri ráðstöfun. Það er einungis ef um sölu væri að ræða en þetta get ég áreiðanlega útskýrt betur fyrir hv. 17. þm. Reykv. hér á eftir í ræðu minni.