Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 21:02:00 (3040)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég hafði skilið það svo, eins og bæði forseti sjálfur og þeir ræðumenn sem hafa tekið til máls, að ætlunin væri að ljúka umræðunni í kvöld. Ég geri ráð fyrir því að flestir hafi reiknað með að það þyrfti ekki að taka langan tíma og því hafi ekki verið talin ástæða til þess að gefa sérstakt kvöldmatarhlé.
    Það má með nokkrum sanni segja að umræðan hafi orðið líflegri en ýmsir reiknuðu með þegar þessar ráðagerðir voru uppi. Það þarf ekki að koma á óvart. Við vitum það öll að um er að ræða mál sem staðið hefur mikill ágreiningur um og þegar menn grípa til andsvara á báða bóga er ekki óeðlilegt að það leiði til nokkurrar umræðu.
    Þó verður ekki sagt að stofnað hafi verið til langra ræðuhalda eða nokkur hv. þm. hafi gefið tilefni þess að ætla að menn væru að reyna að draga umræður á langinn. En í ljósi þess að um þetta mál hafa orðið miklar umræður, að öll efnisatriði í ágreiningi milli flokka eru ljós og í raun og veru hefur okkur öllum tekist að koma sjónarmiðum okkar fram, þá vil ég mælast til þess að menn finni leiðir til að ljúka umræðunni í kvöld þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að allir þeir sem hlut eiga að máli gætu haldið sjónarmiðum sínum málefnalega til haga með ítarlegri málflutningi en orðið hefur. Ég fer þess vinsamlega á leit að við getum á þennan veg staðið við ráðagerðir okkar. E.t.v. væri hyggilegt, herra forseti, að gera nokkurra mínútna hlé á fundinum til þess að ræða það á milli manna með óformlegri hætti en hér á þingfundinum hvernig mætti standa að lokum umræðunnar þannig að allir geti verið sáttir við þau málalok.