Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:55:00 (3200)

     Kristín Einarsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég kem upp til að segja að mér þykir ákaflega óeðlilegt að hæstv. heilbrrh.- og trmrh. skuli ekki tala í þessu máli fyrr en núna við 3. umr. og sjá sér ekki fært að vera lengur í þinghúsinu eftir að hann flytur sína ræðu en í 15 mínútur eða svo.
    Eins og hér hefur komið fram hefur hann ekki svarað fyrirspurnum þingmanna. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hefur lýst því að hann hefur ekki svarað hans fyrirspurnum og hann svaraði heldur ekki þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lagði fyrir hann nema að óverulegu leyti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. notaði sinn tíma í liðlega klukkutíma rétt fyrir miðnætti til að tala í þessu máli og stökkva svo í burtu. Ég lýsi því yfir að mér þykir þetta mjög óeðlileg framkoma, en ég ætla ekki að óska eftir því að hann verði sóttur því að hingað til hefur það gert ákaflega lítið gagn að fá hann hingað. Það breytir hins vegar ekki því að framkoma hans við þingið í öllu þessu máli er með ólíkindum.
    Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, og þykir mér svona framkoma ekki til þess fallin að flýta fyrir þingstörfum.