Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:53:00 (3275)

     Guðmundur Hallvarðsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð fjmrh. áðan hvar hann gat þess að fleiri fyrirtæki í skipaiðnaðinum eru í vanda en Slippstöðin á Akureyri. Ég vil benda t.d. á elstu slippstöðina á Íslandi, Slippstöðina í Reykjavík, sem nú sér fram á verkefnaskort. Telja má upp miklu fleiri skipaverkstöðvar eins og á Akranesi, Ísafirði og fleiri stöðum. Þetta segir manni og leiðir hugann að því að eitthvað er að í íslenskum skipaiðnaði þegar útgerðaraðilar hér á landi leita frekar á erlenda grund til þess að láta lagfæra skip sín eða breyta þeim. Nauðsynlegt er, eins og fjmrh. kom inn á áðan, að líta á skipasmíðaiðnaðinn í heild sinni og taka þeim tökum að möguleiki verði á að beina viðskiptum íslenskra útgerðaraðila til slippstöðva innan lands. Og ég ítreka það að fleiri skipaverkstöðvar eiga nú við vanda að stríða en á Akureyri.