Ferða- og dagpeningar opinberra starfsmanna

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 10:42:00 (3432)

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör hans og fagna um leið að hann hefur tekið upp viðræður bæði við Flugleiðir og ferðaskrifstofurnar með það að markmiði að reyna að lækka ferðakostnað eins mikið og mögulegt er. Ég sagði hér áðan að ég liti á dagpeninga sem launauppbót og reyndar ferðahvetjandi líka, eins og ég orðaði það. Þessu var ráðherra ekki alveg sammála og benti á að t.d. væru mismunandi aðstæður ráðherra til að nýta sér slíka launauppbót ef hún væri sem slík. Ég veit ekki hvað á að kalla þetta annað en launauppbót því að þessir dagpeningar renna óskertir beint í vasa ráðherra, hann þarf ekki að nota þessa peninga. Það segir hér í 10. gr. þeirra reglna sem ráðuneytið er nýbúið að gefa út að ráðherrum og forseta Hæstaréttar skuli greiddir fullir dagpeningar, auk þess skal þeim greiddur ferða- og gistikostnaður, risnukostnaður og símtöl. Þetta dekkar náttúrlega allt útgjaldasviðið þannig að þeir peningar sem greiddir eru sem dagpeningar eru hrein launauppbót og ekkert annað.
    Varðandi dagpeninga til maka fæ ég alls ekki skilið til hvers á að greiða mökum dagpeningana frekar en ég fæ skilið þessar greiðslur til ráðherranna. Ég geri engan greinarmun á því hvort óskað er eftir maka í ferðina eða hvort það er ráðherrann sem óskar eftir því. Ég sé enga þörf fyrir þessar greiðslur því allur kostnaður er greiddur. Þess vegna finnst mér skynsamlegra og ég fagna því að ráðherra tók undir það að frekar ætti að horfa til einhvers konar vasapeningakerfis þar sem allur útlagður kostnaður yrði greiddur af ríkinu umfram þann vasapening sem er útvegaður. Það finnst mér hin rétta leið og er einfalt að koma slíku kerfi á. Ég fagna því að ráðherra er tilbúinn að skoða það og ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn að skoða það með honum og standa að því að lögð verði fram tillaga í þá veru á því þingi sem nú stendur yfir.