Auglýsingakostnaður fjármálaráðuneytis

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 11:23:00 (3450)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig góðra gjalda vert að skoða auglýsingakostnað ráðuneyta og ráðherra en það þarf kannski að gera á svolítið öðrum grunni en hér er gert. Það sem ég er sérstaklega með í huga eru fundaferðir ráðherra þar sem mjög er misjafnt hvaða siðferðisþrek þeir hafa til þess að nota þær ferðir til kynningar á vegum ráðuneytis og þess starfs sem þar er verið að vinna.
    Því miður hefur það viljað brenna við að hreinar pólitískar áróðursferðir ráðherra séu auglýstar á vegum ríkisins sem kynnisfundir ráðuneyta en síðan notaðar í pólitískum áróðurstilgangi. Hv. 17. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþfl., biður um dæmi. Ég skal gera það með glöðu geði. Þar vil ég nefna tvær fundaferðir hæstv. utanrrh. Aðra til þess að kynna EES og hina til að kynna GATT. Ég hef farið á einn slíkan fund þar sem verið var að kynna hugsanlegan EES-samning á Akureyri og þar var um að ræða hreinan flokkspólitískan áróðursfund.