Ósoneyðandi efni

80. fundur
Fimmtudaginn 13. febrúar 1992, kl. 12:40:00 (3486)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Vissulega er það rétt hjá hv. þm. að hér er vá fyrir dyrum. Hann nefndi gróðurhúsaáhrifin og koltvísýringsmengunina. Það sem væri einfaldast að gera til þess að ná mestum árangri á sem skemmstum tíma í þeim efnum væri, að mati margra sérfræðinga, að hætta niðurgeiðslum á eldsneytisverði. T.d. er talið í nýrri sérfræðingaskýrslu að ef Rússland og hin fyrri lýðveldi Sovétríkjanna hættu öllum niðurgreiðslum á eldsneyti mundi það draga úr þessum áhrifum koltvísýringsins um 6% á heimsmælikvarða og það er gífurlegt magn sem þar er um að ræða. Ef þróunarlöndin kæmu til viðbótar líka mundi þessi minnkun verða um 10%. En auðvitað er ljóst að hér er um flókið og vandasamt mál að ræða sem hefur víðtækar, efnahagslegar afleiðingar á mörgum sviðum.
    Varðandi annað sem hv. þm. sagði þá fullvissa ég hann um það að ég mun beita mér fyrir því eftir megni að við verðum ekki eftirbátar annarra í þessum efnum, hvorki að því er varðar þau efni sem fjallað er um sérstaklega í hans fyrirspurn né á öðrum sviðum.
    Varðandi þá fjölmiðlaumræðu sem verið hefur að undanförnu, þá hygg ég að kannski megi segja að þar gæti sums staðar ógætilegrar túlkunar og eins er það að vísindastofnunum ber ekki öllum saman um niðurstöður. En það breytir ekki því að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og ekki síst fyrir okkur sem búum hér á norðurslóðum þar sem reynslan sýnir og rannsóknir leiða í ljós betur og betur að meir og meir af þessum hættulegu efnum, þá er ég ekki bara að tala um það sem berst okkur í loftinu heldur líka í hafinu, berst hingað norður eftir og við þurfum því að halda vöku okkar. Við þurfum að auka umhverfisvöktun og við eigum að nota öll tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að beita áhrifum okkar til þess að draga úr flutning þessara efna hingað norður eftir og draga úr framleiðslu og notkun þeirra í veröldinni. Þar veit ég að við eigum sama mál, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.