Innflutningur dýra

83. fundur
Þriðjudaginn 18. febrúar 1992, kl. 15:39:00 (3555)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Mér þykir gott að heyra að ekki eigi að slaka neitt á kröfum um sóttvarnir. En ég vil þó ítreka spurningu mína um hvers vegna er þetta er þá talið nauðsynlegt. Hefur verið erfitt að fá dýralækna til starfa með þeim skilyrðum að þeir séu staðbundnir í Hrísey, þ.e. þeir fá ekki að starfa utan sóttvarnastöðvarinnar? Það kom fram í máli hæstv. landbrh. að komið hefði í ljós að ekki hefði verið hægt að reka stöðina án þessa --- ég man ekki nákvæmlega orðalagið --- en það væri af nauðsyn sem þetta væri gert. Þá langar mig til að spyrja hver sú nauðsyn er, og fyrst og fremst hvort hafi verið skortur á því að dýralæknar hafi tekið á sig þær kvaðir sem í núgildandi lögum eru faldar.