Sementsverksmiðja ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 10:45:00 (3625)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Hér er um tvö mál að ræða í rauninni, þ.e. að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag og síðan hvort selja eigi hlutabréf í slíku félagi. Þegar frv. um Sementsverksmiðja ríkisins verður afgreitt er verið að taka ákvörðun um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur kannski ekki fylgst svo gjörla með þessari umræðu en aldrei hefur staðið til og stendur ekki til að leggja niður þá flutningsjöfnun á sementi sem hefur verið við lýði. Því er ekki verið að bera þá hagsmuni landsbyggðarinnar fyrir borð sem hv. þm. taldi sig bera sérstaklega fyrir brjósti. En það er furðulegt og einkennileg tímaskekkja að þegar ríkisrekstur kommúnismans um gjörvalla Austur-Evrópu er hruninn að þá skuli talsmenn þess sjónarmiðs koma í ræðustól og predika á hinu háa Alþingi að það sé sáluhjálparatriði að ríkið standi í stórkostlegum fyrirtækjarekstri.