Veðurathuganir við strönd Austurlands

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 11:32:00 (3647)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Með þessari fsp. er hreyft máli sem hefur verið mikið til umræðu hjá sjómönnum á Austurlandi að undanförnu og það ekki að ástæðulausu. Auðvitað skiptir mjög miklu máli að upplýsingar sem varða öryggi sæfarenda séu í sómasamlegu horfi og það nær ekki nokkurri átt að gripið sé til skerðinga af kostnaðarástæðum án þess að séð sé fyrir að ekki sé verið að rýra þjónustu og öryggi sæfarenda. Þetta gildir ekki síst um smábáta og þá sem gera út á smábátum Austurlands og fiska á grunnslóð en auðvitað alla sæfarendur sem þarna fara um. Ég tel að flutningur að Núpi á Berufjarðarströnd sé ekki sannfærandi úrlausn í málinu, t.d. að því er varðar athuganir á þoku og slíkum skilyrðum og sjólagi sem snerta ekki síst smábátana mjög miklu máli. Fyrir þessu er reynsla og þeir sem búa við þær aðstæður eins og t.d. á Norðfirði þar sem menn sjá til hafs hafa möguleika sem aðrir hafa ekki sem eru lengra innfjarða. Við gerum því kröfu um það, við hljótum að gera það, að horfið verði frá þessu ráði og reynt að tryggja þær athuganir sem gera þarf ef ekki fæst úrlausn með þeim aðgerðum sem ráðherra var að boða sem ég dreg í efa að verði fullnægjandi.