Staðfesting alþjóðasamþykktar um jafnrétti karla og kvenna

85. fundur
Fimmtudaginn 20. febrúar 1992, kl. 12:08:00 (3657)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem hér er og þeim upplýsingum sem fram komu í máli hæstv. félmrh. Ég vona að það verði ekki löng bið á að þessi umrædda samþykkt verði tekin fyrir, afgreidd og gerðar þær lagabreytignar sem nauðsynlegt er til að hún verði fullgild. Það er ekki síst vegna þess að til þess að fólk hafi möguleika á að geta sinnt fjölskyldu sinni, jafnframt því að stunda vinnu, þá þurfa að vera skýlaus ákvæði í kjarasamningum og lögum að það sé réttur fólks að geta annast t.d. veik börn sín. Það hefur því miður verið nokkur misbrestur á að þessi réttur sé fyrir hendi þrátt fyrir að ýmsir möguleikar séu til eftir mismunandi starfsstéttum. Ég held líka að máli skipti að þetta sé lögfest og vel frá því gengið í kjarasamningum til þess að gera það mögulegt að báðir foreldrar, bæði faðir og móðir, hafi möguleika á jafnri foreldraábyrgð því annars hefur reynslan og kannanir, m.a. lífskjarakönnun Félagsvísindastofnunar, sýnt að þessi ábyrgð lendir fyrst og fremst á mæðrunum og vinnuveitendur feðranna sýna lítinn skilning.