Háskólinn á Akureyri

89. fundur
Miðvikudaginn 26. febrúar 1992, kl. 15:55:00 (3787)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég er sammála því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það væri þörf fyrir stuttar námsbrautir á háskólastigi og það beri fremur að hlúa að þeim en hitt. Ég er þess vegna ósammála því ef Lánasjóður ísl. námsmanna hefur tekið einhverja ákvörðun til frambúðar um það að lána ekki til þessara stuttu námsbrauta og mun athuga það mál sérstaklega.
    Varðandi dreifðu og sveigjanlegu kennaramenntunina og mögulega miðstöð hennar á Akureyri þá þykir mér þar hreyft mjög athyglisverðri hugmynd. Ákvörðun um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun fylgdi hins vegar viðræðum sem teknar voru upp við Kennaraháskóla Íslands eftir að ákvörðun var tekin um frestun fjögurra ára námsins á síðasta sumri. Það varð niðurstaða þeirra viðræðna að unnið yrði nú að undirbúningi fjögurra ára náms en það var ákveðinn fyrirvari um hvort það yrði í sama formi sem ákveðið hafði verið á sl. ári. Það verður athugað nánar hvort fjórða árið kann að verða einhvers konar kandídatsár, en á sama tíma var sem sagt tekin sú ákvörðun að tekin yrði upp dreifð og sveigjanleg kennaramenntun. Þá lá ekki fyrir frekar en nú nein ákvörðun um að tekið yrði upp kennaranám við Háskólann á Akureyri, en það að þessi ákvörðun hefur verið tekin um dreift og sveigjanlegt kennaranám við Kennaraháskóla Íslands þarf ekki að koma í veg fyrir að miðstöð slíkrar kennslu yrði við Háskólann á Akureyri og mér þykir alveg sjálfsagt að athuga það. Ég held ég hafi þá um leið gert grein fyrir hvernig viðskipti menntmrn. við Kennaraháskólann hafa verið eftir að ákvörðunin um frestunina var tekin, en það er sem sagt gert ráð fyrir að fjögurra nám í einu eða öðru formi hefjist á næsta ári, haustið 1993.