Tilkynning um atkvæðagreiðslu

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 10:32:00 (3887)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Vegna þess atviks sem gerðist hér á þingfundi í gær og leiddi til þess að ógilda varð atkvæðagreiðslu vill forseti, áður en gengið er til dagskrár, geta þess að formenn þingflokka Framsfl., Alþb. og Samtaka um kvennalista skrifuðu skrifstofustjóra Alþingis bréf í gær og óskuðu eftir því að kannað yrði hvort og hve oft eitt atkvæði hafi ráðið úrslitum í atkvæðagreiðslu á Alþingi síðan atkvæðagreiðslukerfið var tekið í notkun. Þetta hefur þegar verið gert og hefur skrifstofustjóri ritað þingflokksformönnunum bréf þar sem fram kemur að ekkert dæmi er til þess síðan atkvæðagreiðslukerfið var tekið í notkun að úrslit máls hafi oltið á einu atkvæði.
    Forseti vill endurtaka þau orð sem hún lét falla í gær að hér hafi verið um mjög alvarleg mistök að ræða og treystir því að slíkt komi aldrei fyrir aftur.
    Þá er þess enn fremur að geta að síðan í haust hefur verið til athugunar að setja upp búnað til þess að sýna í sjálfum þingsalnum með einhverjum hætti hvernig hver og einn þingmaður greiðir atkvæði og er þess að vænta að niðurstöður í því máli liggi fyrir næstu daga.