Framleiðsla og sala á búvörum

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 10:41:00 (3888)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hv. landbn. Alþingis kom saman milli 2. og 3. umr. og fór yfir álitamál sem upp höfðu komið og vörðuðu stöðu leiguliða á bújörðum í tengslum við þetta frv. Það varð samhljóða niðurstaða nefndarinnar í góðu samkomulagi að að þessu máli yrði hugað nú eftir mánaðamótin, en þannig háttar til að það er mjög þýðingarmikið fyrir framgang þessa frv. að það fái afgreiðslu fyrir mánaðamót og því þótti nefndarmönnum ekki rétt að tefla framgangi þess í tvísýnu með því að taka upp efnislega umræðu um mál sem gæti kostað nokkra íhugun og þyrfti nokkurrar íhygli við. Ég vildi láta þetta koma hér fram. Á þessum fundi ræddum við þessi mál nokkuð og raunar komu önnur mál örlítið þar líka til umræðu. Ásamt landbúnaðarnefndarmönnum sátu þennan fund Helgi Jóhannsson, lögfræðingur úr landbrn., Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur og Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda. Ég hygg að það sé sami skilningur allra nefndarmanna á framgangi þessa máls og afstöðunni hvað þetta atriði áhrærir. Og verður tekið til við þau verk strax og tækifæri gefst til í næsta mánuði.