Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:18:00 (3937)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á hvernig hv. 8. þm. Reykn. kýs að haga sínum orðum. Fyrst reynir hann að koma því að að ég hafi fullyrt að samningurinn væri ólöglegur. Þar með reyndi hann að komast eins langt í þessu máli og honum var frekast kostur. Þegar ég benti honum á að það hefðu aldrei verið mín orð dró hann nokkuð í land og sagði: Það má vel vera að þingmaðurinn hafi sagt að samningurinn hafi ekki verið ólöglegur.
    Aðalatriði málsins er þetta: Ég vék aldrei að því hvort samningurinn væri ólöglegur. Ég bað eingöngu um að samgn. þingsins færi ofan í þetta mál af tilefni sem ég rakti ítarlega og er ástæðulaust að fara hér aftur yfir. Ég benti á hvernig heimildarákvæðið var orðað og þess vegna væri full ástæða til þess að samgn. færi ofan í þetta mál. Um þetta snýst þessi orðræða og alls ekki neitt annað. Það er af og frá að ég sé að reyna hér að búa til einhverja pólitíska flugeldasýningu til að nota úti í kjördæmunum. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að það var hlutverk hæstv. þáv. fjmrh. að koma með þennan samning inn í fjárveitinganefnd. Ég hafði hins vegar komist að því að það hafði ekki verið gert og þess vegna óskaði ég eftir því að samgn. þingsins færi ofan í þennan stóra samning sem gerður var rétt fyrir síðustu kosningar og kannaði hann alveg sérstaklega. Það er sjálfsögð ósk sem þingmenn hljóta að koma fram með í umræðum um svo stóran málaflokk og um svo stóran samning sem gerður var af fjmrh. rétt fyrir kosningar án þess að leita samþykkis fjárveitinganefndnar.