Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:57:00 (4029)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég varð afskaplega ánægð þegar ég heyrði hv. síðasta ræðumann upplýsa það að hann ætlaði að segja okkur hvað Framsfl. hefði gert í þeirri stöðu sem við erum í og átti ég raunar von á að þá fengjum við að vita hvað Framsfl. hefði viljað gera varðandi atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum sérstaklega. ( Gripið fram í: Hv. seinasti ræðumaður var . . .  ) Hv. seinasti ræðumaður, hinn var í andsvari, ég hélt að hann teldist ekki til ræðumanna heldur bara andsvaranda. En til að leiðrétta einhvern misskilning þá á ég að sjálfsögðu við hv. 2. þm. Vestf.
    Það kom auðvitað óbeint í ljós að það væri með almennum aðgerðum áreiðanlega hægt að ráða nokkuð bót á því vonda ástandi sem er í atvinnumálum kvenna á Suðurnesjum og ég tek það gilt sem hluta af skýringunni. Jafnframt vil ég vekja athygli á því að meðflutningsmaður minn að þessari tillögu er hv. 7. þm. Reykn., formaður Framsfl. Steingrímur Hermannsson, og ég þykist vita að hv. ræðumaður taki einnig undir það að efni þessarar tillögu er jafnframt áhersla sem Framsfl. sem aðrir flokkar vilja leggja í þessu. Það þarf að gera átak í atvinnumálum kvenna á Suðurnesjum og undir það hafa allir tekið. Þótt einungis hafi þrír flokkar skrifað undir þessa tillögu sem er til umfjöllunar þá hafa allir lýst þessu mjög eindregið yfir.