Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:59:00 (4030)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Í mínum huga er Grindavík á Suðurnesjum og það kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl. að það væru hagsmunir þeirra í Grindavík að þar væri söltuð síld. Ég tel mig þess vegna hafa verið að tala um atvinnumál á Suðurnesjum. Ég tel að eitt af því stóra sem við eigum að gera sem matvælaframleiðsluþjóð sé að kosta kapps um að auka verðmæti þeirrar framleiðslu og þess hráefnis sem við höfum. Og það hráefni sem við förum verst með af öllu hráefni er síldin. Síldin er svo sannarlega mannamatur. En við mokum megninu af henni enn þá --- nú hristir hv. 3. þm. Austurl. höfuðið og ég veit ekki hvort hann er að hafna því að síldin sé mannamatur --- en við förum með megnið af henni þannig að við setjum hana í gúanó. Mér eru það mikil vonbrigði eftir að hafa séð þá jákvæðu þróun sem átti sér stað í lagmetisiðnaðinum að horfa upp á það að nú skuli sá iðnaður líka vera að bresta. Það er nú nokkuð glæfralega spenntur boginn, sýnist mér vera, þegar menn meta það hvað á að setja á höfuðið í þessu landi.