Umhverfisslys

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:38:00 (4305)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Vegna spurningar í síðustu ræðu hv. þm. vil ég segja það að nefndin hefur ekki lokið störfum. Að því er ég best veit er hún að störfum. Hún mun væntanlega skila mér skýrslu áður en allt of langt um líður. Ég mun ganga eftir því. Hins vegar er ætlunin að þessi nefnd sé til staðar, sé eins konar viðbragðsnefnd í viðbragðsstöðu, til þess að gera ráðstafanir, annast samræmingu aðgerða og gera tillögur um aðgerðir ef óhapp ber að höndum. Ég held að mjög mikilvægt sé og kom raunar í ljós þegar mengunarslysið eða óhappið varð norður á Ströndum að í rauninni var enginn aðili sem ótvírætt hafði þá ábyrgð eða skyldu að hefjast handa eða freista þess að grípa til einhverra aðgerða. Í því tilviki voru auðvitað engar aðgerðir mögulegar. Það varð engu um það breytt sem þarna hafði gerst.
    Varðandi það hins vegar sem hún segir um sérstakt varnakerfi og viðbúnað, hygg ég að leitað yrði á náðir þess varnakerfis sem fyrir er í landinu, hinna vösku björgunarsveitarmanna á vegum Slysavarnafélagsins, Hjálparsveita skáta og Flugbjörgunarsveita ekki síst og auðvitað yrði einnig leitað til sjálfboðaliða ef atburði bæri að höndum sem krefjast þess að miklum mannafla væri beitt við einhvers konar björgunar- eða hjálparstörf. Ég hef efasemdir um hvort það eigi að koma upp einhvers konar nýju kerfi. En það kemur auðvitað til álita hjá þeirri nefnd sem ég nefndi áðan og hún mun áreiðanlega fjalla um það.