Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:22:00 (4325)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Það er alveg augljóst að hv. þm. gerir sér enga grein fyrir því um hvað menn eiga að tala þegar þeir ræða um gæslu þingskapa. Þá eiga menn að víkja að stjórn fundarins, ef þeim þykir eitthvað athugavert í þeim efnum, en fyrirspurnir til ráðherra eiga ekki heima undir þeim dagskrárlið. Þess vegna var hv. þm. að fara á svig við þingsköpin með því að nota þetta form til þess að koma fyrirspurninni á framfæri. Hann hafði til þess tækifæri þegar hann stóð hér upp og gerði athugasemd í fyrirspurnatímanum og þá hefði verið eðlilegt af hálfu hv. þm. að koma fram með slíka fyrirspurn. Þess vegna var ábending forseta eðlileg en gagnrýni hv. þm. á forsetann fullkomlega óeðlileg. Þvert á móti má halda því fram að forseti hafi gert sér far um að koma mjög mildilega fram og sýna stjórnarandstöðunni mikla sanngirni í umræðum í þinginu í vetur.