Atkvæðagreiðsla með rafeindabúnaði

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 13:59:00 (4370)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar mun mér hafa orðið á að greiða ekki atkvæði og ég bið virðulegan forseta og þingið afsökunar á því. Það er auðvitað ekki í samræmi við þingsköp, eins og margoft hefur komið fram. Hitt er svo annað að mér óreyndum manninum þykir það sæta furðu hversu þolgóðir ýmsir hv. þm. eru að deila við framfarir og tækni. Við höfum það skráð í Íslandssögunni að virðulegir bændur söfnuðust saman í Reykjavík 3. ágúst 1905 og mótmæltu símanum. Ég kem ekki auga á annað en ýmsir hv. þm. séu að endurtaka þann leik í dag með því að gera rafeindatæknina tortryggilega.