Fjarskipti og sjónvarpsútsendingar á Vestfjarðamið

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 10:49:00 (4522)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Allt frá því að ákveðið var að setja upp ratsjárstöð á Bolafjalli við Bolungarvík var um það rætt að eðlilegt væri að nýta ratsjárstöðina til betri fjarskipta við skip á Vestfjarðamiðum og til sjónvarps- og útvarpssendinga á miðin. Það er alveg ljóst að símasamband, t.d. farsímasamband, á slóðinni skammt við Bolafjall þarf að bæta og það hentar mjög vel að það sé gert með því að koma slíkum búnaði fyrir á Bolafjalli. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. samgrh. um þetta atriði málsins. Hins vegar hlýt ég að harma það ef nú er farið að örla fyrir einhverjum undanbrögðum varðandi það að setja upp búnað til þess að tryggja betur sjónvarps- og útvarpsútsendingar út á miðin. Það hefur alltaf og ætíð verið talað um að það yrði gert í tengslum við uppsetningu ratsjárstöðvarinnar. Það liggur fyrir að kostnaður við slíka uppsetningu yrði mjög lítill. Nú þegar eru fyrir hendi ýmis mannvirki sem nýtast þessari starfsemi, þar á meðal rafmagn og þarna er um að ræða slíka starfsemi að hægt er að gæta þessara mannvirkja. Ég tel að það séu brigður ef ekki verður farið í það að koma slíkum búnaði fyrir eins og um var rætt og alltaf hefur verið um talað.