Háskólamenntun í listum

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:49:00 (4577)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hvenær er að vænta formlegrar ákvörðunar og framkvæmda um listmenntun á háskólastigi, er fyrri spurning hv. fyrirspyrjanda. Ég svara þessari spurningu svona: Nefnd sem skipuð var í apríl síðasta ár til að undirbúa skipulag og framkvæmd listgreina og listfræðakennslu á háskólastigi skilaði skýrslu sinni til mín um miðjan janúar sl. Niðurstöður og tillögur nefndarinnar hafa verið til athugunar í ráðuneytinu, auk þess sem skýrslan var send til umsagnar Háskóla Íslands og samstarfsnefndar háskólastigsins. Skýrslan hefur einnig verið send ýmsum öðrum aðilum til kynningar.
    Þessi spurning lýtur að því hvenær sé að vænta formlegrar ákvörðunar og framkvæmda um listmenntun á háskólastigi. Formlegrar ákvörðunar er ekki að vænta fyrr en ráðuneytinu hafa borist svör umsagnaraðila. Eftir það verður málið athugað frekar í ráðuneytinu og ákvörðun tekin um áframhaldið. Ljóst er hins vegar að svigrúm til kostnaðaraukandi framkvæmda er vart fyrir hendi á þessu ári.
    Í síðari spurningunni er leitað eftir afstöðu minni til tillagna nefndarinnar. Niðurstöður og tillögur nefndarinnar skiptast í fjóra meginþætti.
    1. Tillaga að skilgreiningu á háskólamenntun í listum í fimm liðum.
    2. Niðurstaða nefndarinnar um það hvað af núverandi kennslu geti talist á háskólastigi og tillaga um að ítarlegt mat fari fram á listnámi á Íslandi.
    3. Tillaga um skipan háskólamenntunar í þá veru að listaháskóli verði sjálfstæð kennslu- og rannsóknastofnun innan Háskóla Íslands.
    4. Háskólamenntun í listum verði staðfest á Íslandi í áföngum og að skipuð verði nefnd til að vinna áfram að málinu.
    Ég tel ekki tímabært að lýsa endanlegri afstöðu til þessara tillagna áður en framangreindri umfjöllun um skýrslu nefndarinnar er lokið. Mér er ljóst að listdansskólarnir, a.m.k. sumir hverjir, eiga í erfiðleikum vegna óvissu um mat á náminu og framtíðarstöðu þeirra í skólakerfinu. Ég vil vinna að því að þessari óvissu verði eytt, en vandlega þarf að huga að því hvaða ráðstafanir er fært að gera í þessu efni án breytinga á gildandi lögum.