Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:36:00 (4698)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem segja að mjög brýnt sé orðið að við semjum um sameiginlega fiskstofna við önnur ríki. Það er líka greinilegt að við þurfum að hyggja að samningum um fleira og þá á ég við nýtingu þeirra fiskstofna sem eru ekki sameiginlegir og hvernig þeim málum verður best fyrir komið. Það er nefnilega greinilegt að veiðar okkar og annarra þjóða skipta máli í viðskiptum sem öðru. Íslendingar hafa alltaf þurft að hyggja mjög að því að friðun sé virt í hafinu í kringum okkur og því er mjög freistandi að styðja alla þá sem vinna gegn rányrkju með friðunum. Hvernig því verður við komið er auðvitað atriði sem verður að líta á nánar.
    Það er mjög brýnt að þær þjóðir, sem eiga allt sitt undir fiskveiðum, sýni hver annarri samstöðu og skilning. Við eigum allt efnahagslíf okkar undir fiskveiðum og við hljótum að líta með töluverðum skilningi til annarra þjóða sem eins er ástatt um.
    Ég fagna því að frv. það sem við ræddum um áðan og greiddum um atkvæði fer nú til nefndar á milli 2. og 3. umr. og ég vænti þess að hv. sjútvn. og utanrmn. geti fjallað þar einnig um það frá því sjónarmiði sem hér er rætt um.