Kaup á fiski sem veiddur er við Kanada

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:41:00 (4700)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hæstv. sjútvrh. um okkur ber að sjálfsögðu að styðja Kanadamenn og íbúa Nýfundnalands í viðleitni þeirra til þess að verja hagsmuni sína, verja þá hagsmuni sem lúta að sjávarútvegi og fiskveiðum innan efnahagslögsögu þeirra. Hins vegar vil ég vara við því, vegna þess að það kom hér til umræðu og hjá hv. málshefjanda, að þetta mál verði notað til þess að tefja eða draga á langinn að frv. það sem var til umræðu fyrr á fundinum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands verði að lögum. Ég vil vara eindregið við því. Ég tel að það mál sé afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, bæði fyrir hafnir landsins og aðra sem geta þjónað þeim aðilum sem fengju leyfi til veiða í efnahagslögsögu okkar. Þess vegna vara ég við því að þetta mál Kanadamanna og það deilumál sem komið er upp hjá þeim verði notað til þess að tefja afgreiðslu á frv. til laga um rétt erlendra skipa til veiða í efnahagslögsögu Íslands.