Flutningur stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:48:00 (4763)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég held að sú álitsgerð, sem hæstv. forsrh. las upp úr frá Byggðastofnun, gefi ekki fyllilega rétta mynd af því sem hefur verið að gerast hjá öðrum þjóðum. Ég vil nefna það sérstaklega að ,,direktorat`` í Noregi, sem gegnir svipuðu hlutverki og fiskistofa sú á að gera sem við erum að tala um að festa í lög hér, er ekki í Ósló heldur var flutt vísvitandi út á land til þess að gegna sínu hlutverki þar. Í Evrópu hefur mikil umræða farið fram um flutning ríkisstofnana út á land og mikið hefur verið gert í þessum málum, t.d. í Frakklandi. Ég held að það væri ástæða til þess fyrir Byggðastofnun og aðra aðila að afla sér upplýsinga um það.
    Hugmyndabankann skortir ekki hér. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Það vantar ekki hugmyndabankann. Hins vegar hefur vantað viljann til þess að flytja stofnanirnar út á land. Ég held að sú þáltill. sem er fyrir þinginu um að meiri hluti starfa á vegum ríkisins verði úti á landi, hafi veikleika sem er fólginn í því að við gerum ráð fyrir því að ríkissjóður hafi minna umleikis á næstu árum heldur en verið hefur þannig að ég held að fullkomin ástæða sé til þess að fara að setja fram framkvæmdaáætlun um flutning ríkisstofnana út á land og þar á meðal Byggðastofnun og það er dapurlegt að inni í þinginu skuli vera þeir veikleikar í sambandi við flutning Byggðastofnunar út á land sem við vitum að eru hér.