Vernd gegn innheimtumönnum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:31:00 (5026)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er nú vonum seinna í raun að þetta mál komi til umræðu hér á Alþingi, svo fáheyrt mál sem er hér á ferðinni. Þetta ber vitni um þá hörku sem er að færast í fjármálastarfsemi og viðskipti hér á landi, ljóslega finnst mér. Þarna er á ferðinni vargahjörð sem er að taka upp mál með alveg ótrúlegum hætti gagnvart einstaklingum þannig að réttlætisvitund almennings er auðvitað gjörsamlega ofboðið í sambandi við svona málafylgju. Og mér finnst að það hljóti að vera til athugunar hvort ekki er nauðsynlegt að lögleiða skýrari varnir og samræmdari heldur en fyrir liggja í löggjöf og hæstv. ráðherra kynnti hér af þessu tilefni því að þessum tilefnum er að fjölga. Sjálfur er ég áskrifandi að allnokkrum tímaritum og greiði þau yfirleitt svona sæmilega og með góðu samkomulagi, en ég hef orðið var við að það er farið að ganga að mönnum eftir eins eða tveggja mánaða greiðslutöf með hótunum. Ég hef orðið persónulega var við það. Þetta er alveg með ólíkindum.