Staða karla í breyttu samfélagi

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 13:14:00 (5064)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið svarað fsp. um sjö manna nefnd skipuð fólki með afar ólíkan bakgrunn og mismunandi reynsluheim. Nú kemur það fram að eitt sjónarmiðið virðist ekki falla að hugmyndum hv. fyrirspyrjanda og þess vegna hefur hann lagt fram fsp. til ráðherrans um hvort hann hafi fylgst með kynningu einstakra nefndarmanna sem voru nánar tilteknir í hans máli. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg tilganginn með fsp. Hvers vegna er fyrirspyrjandinn að leggja þetta fyrir hæstv. félmrh.? Við skulum segja sem svo að ráðherrann hefði fylgst með þessu öllu saman, heyrt allt sem fyrirspyrjandinn var að vitna til. Hvað átti þá ráðherrann að gera? Átti hann að setja ofan í við þennan mann? Átti hann að reka hann úr nefndinni eða hvað átti að gera? Mér finnst mjög eðlilegt í máli sem þessu að það komi fram mjög mismunandi sjónarmið og mér finnst ekkert óeðlilegt við að einn nefndarmanna, sem tekur það sérstaklega fram að hann tali í eigin nafni en ekki í nafni nefndarinnar, setji fram sín sjónarmið þó að þau kunni ekki að falla öllum í geð. Ég ítreka að nefndin er fjölskipuð, skipuð sjö manns með mjög mismunandi reynsluheim. Formaður nefndarinnar er þekkt baráttukona á sviði jafnréttismála sem hefur kynnt störf nefndarinnar út frá sjónarhóli hennar sem slíkrar og ég tel ekkert óeðlilegt við þá umræðu sem fram hefur farið og ekkert óeðlilegt við að einn nefndarmanna kjósi að viðra skoðanir sínar þótt þær falli kannski ekki öllum í geð.