Lóranstöðin á Gufuskálum

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:17:44 (5755)


     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið varðandi framtíð Lóranstöðvarinnar. Eins og fram kom hefur verið tekin ákvörðun um að leggja rekstur lórankerfisins niður frá og með árinu 1994. Af þessu tilefni legg ég ríka áherslu á að skipun boðaðrar nefndar, sem á að hafa það verkefni að undirbúa þá breytingu sem verður, verði hraðað og henni gert að vinna hratt og í samstarfi við þá aðila sem þurfa að fá þessa þjónustu en það eru að verulegu leyti sjófarendur, ekki síst þeir sem eru að veiðum við ströndina.
    Ég hef fengið þær ábendingar að þeir sem vinna við lórankerfið núna og ekki síður sjófarendur hafi verulegar áhyggjur af því að GPS-kerfið sé ekki nægilega nákvæmt og mikilvægt að það verði tryggt ef það verður tekið upp.
    Ég þakka ráðherra fyrir þessi svör en legg ríka áherslu á að á málinu verði tekið bæði hratt og örugglega og ekki síst tekið á því með hvaða hætti mannvirki Lóranstöðvarinnar verði nýtt.
    Forsvarsmenn í Neshreppi utan Ennis, í því sveitarfélagi sem Lóranstöðin er, hafa lýst áhuga sínum á samstarfi við stjórnvöld um að nýta þau hús og mannvirki sem þarna

eru. Og það er auðvitað mjög mikilvæg og merkileg ábending sem hæstv. ráðherra kom með að nýta lóranmastrið fyrir útsendingar útvarpsins. Allt þetta þarf að skoða og ég tel að það þurfi að gera fyrr en seinna.
    Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að leita samstarfs við heimamenn um þá mikilvægu ákvörðun að leggja Lóranstöðina niður, vegna þess að þarna eru, eins og ég sagði fyrr, mörg atvinnutækifæri sem hafa veruleg áhrif á það litla samfélag sem Lóranstöðin er í og því nauðsynlegt að hafa gott samstarf við heimamenn um það hvernig að þessu verður staðið.