Stöðvun á notkun ósoneyðandi efna

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:43:48 (5764)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli hér á Alþingi aftur og hæstv. ráðherra svörin. Ég tel að um mjög stórt og brýnt mál sé að ræða. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. umhvrh. um að Íslendingar ætli að fylgja þeim þjóðum sem lengst ganga í að takmarka notkun ósoneyðandi efna. Þetta er spurning um að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og hlíta þeim reglum sem þar eru settar. En þetta er ekki síður spurning um það hvort við Íslendingar sjálfir erum reiðubúnir til að setja okkur reglur sem við ætlum að hlíta og sem taka mið af íslenskum aðstæðum og veita verðugt fordæmi í því alþjóðlega samstarfi sem við tökum þátt í. Það þarf einnig að skoða og huga að hvaða afleiðingar það hefur í för með sér fyrir neyslu og lífsstíl og atvinnulíf í landinu að dregið verði úr notkun þessara efna og við verðum að mæta þeim aðstæðum sem stöðvun notkunar slíkra efna kemur til með að hafa í för með sér.