Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 14:59:03 (5830)


     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði í andsvar við hv. 3. þm. Vestf. en varð of sein. Ég ætla að segja nokkur orð um frv. sem liggur fyrir. Hv. alþm. eru sammála um það að frv. um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum sé til bóta og skref í rétta átt. Allir sem talað hafa eru sammála um að með því fáist betri nýting og eins að þessar brtt., sem hér liggja fyrir, séu til bóta. Ég skil vel þá tillögu sem kom frá hv. þm. Magnúsi Jónssyni og mæli með að hún verði samþykkt. En það var ekki það sem ég ætlaði að ræða heldur voru það ummæli hv. 3. þm. Vestf. þess efnis að hann telur að frv. jafni aðstöðu fiskvinnslunnar almennt. Ég sé ekki á nokkurn hátt að þetta bæti aðstöðu fiskvinnslunnar í landi. Ég vil gjarnan fá að heyra álit hæstv. sjútvrh., af því að hann er hér, að hvaða leyti hann telur að þetta geti bætt aðstöðu fiskvinnslunnar í landi. Áfram er aðstöðumunur þrátt fyrir að frv. verði að lögum. Tökum bara lánafyrirkomulagið. Fiskveiðasjóður lánar til 18 ára til frystiskipa en ef sami aðili ætlar að breyta hjá sér frystihúsi er lánið til sex ára. Þetta er mikill aðstöðumunur og ég mundi vilja að skoðuð yrði lánalenging til fiskvinnslunnar almennt. Það mundi jafna aðstöðuna. Það er mikill aðstöðumunur í því hvað nýting er miklu lélegri í fiskvinnsluhúsum í landi en sjó. Fiskvinnsluhús í landi eru yfirleitt ekki nýtt nema átta tíma á sólarhring á meðan segja má að þessi frystiskip séu nýtt í 24 tíma. Og raforkukostnaður til fiskvinnslunnar í landi er allt of hár, óbærilega hár. Þrátt fyrir það að frv. sé til bóta tel ég að ef ekki verður reynt að bæta stöðu fiskvinnslunnar í landi færist þetta allt út á sjó hægt og sígandi. Ég er hrædd um að það verði svipað með fiskvinnslustöðvarnar og prjónastofurnar sem hurfu ein af annarri.