Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:56:44 (5849)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Það gerist ærið oft að hv. þm. Kristinn Gunnarsson segir okkur til um þingstörfin, okkur sem höfum setið svolítið lengur en hann. Hann spyr hver hafi mótað þær reglur sem er um að tefla þegar rætt er um það hvernig skuli með fara þegar aðalmaður í nefnd eða ráði hættir, segir af sér eða fellur frá. Því er mjög skýrt til að svara að það er hv. Alþingi sem hefur mótað þá reglu að falli aðalmaður frá eða segi af sér, er kosinn nýr aðalmaður í hans stað. Þetta er afar einfalt mál. Þetta vita hv. þm. velflestir og þurfa enga sérstaka tilsögn í þeim efnum frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni.
    Ég vil annars, virðulegi forseti, nefna að það er svolítið furðulegt og kemur raunar spánskt fyrir sjónir að þingmenn koma og láta sem það komi sér mikið á óvart að það eigi að hætta þeirri starfsemi sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs er. Það kemur á óvart vegna þess að sú ákvörðun var í rauninni tekin við samþykkt fjárlaga. Ég vil nefna, í framhaldi af þeirri umræðu sem hér hefur orðið, að 8. apríl sl. fór fram ítarleg umræða um þetta mál í þingflokki Alþfl. Þá var samdóma álit manna að þessa starfsemi ætti að leggja niður, hún væri tímaskekkja og ríkið ætti ekki að hafa með höndum verk sem þetta. Hins vegar kæmi vel til athugunar að sérstakt forlag á vegum Háskóla Íslands tæki við þessari starfsemi að hluta eða einhverju leyti. Um þetta var einhugur og það er samdóma álit þingmanna Alþfl. að þannig sé þessu best og skynsamlegast fyrir komið Ég held að þingmenn þurfi ekki lengi að lesa lögin um Menningarsjóð og menntamálaráð til að sjá að þau eru tímaskekkja og það er ekki eitt af hlutverkum ríkisins að vera bókaútgefandi. Það er betur komið í annarra höndum.