Sumarlokun á legudeild barna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:46:44 (5988)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að það hefur dregist nokkuð að svara þessari fsp. En varðandi fyrri lið fsp. er því til að svara að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga er því heitið að barnageðdeild Landspítalans sem fsp. vísar til verði áfram í eðlilegum rekstri. Ég ætla ekki hér og nú að fara að skýra þau orð sérstaklega fyrir hv. þm. Eðlilegur rekstur er sjálfsagt sá rekstur eins og þarna hefur verið og sé ég ekki að þetta gefi tilefni til sérstakra hártogana. En við þessa yfirlýsingu verður staðið. Þess er þó að geta að yfirstjórn Ríkisspítalanna hafði þegar undirbúið nokkurn samdrátt í starfi þessarar deildar og vegna þess hve áliðið er orðið er ekki unnt að afturkalla allar þær ráðstafanir að fullu. En það verður allt gert sem unnt er til að þessi starfsemi geti haldi áfram í eðlilegum rekstri og það verði staðið við þessa yfirlýsingu.
    Önnur spurning hv. þm. á ekki lengur við í ljósi þess sem ég hef þegar sagt. Hafi starfsfólki ekki borist upplýsingar um þetta þá verða að sjálfsögðu gerðar ráðstafanir til þess eins og hv. þm. fullyrti áðan. Ég veit ekki um sannleiksgildi þess en mun að sjálfsögðu óska eftir því að þetta verði kynnt þeim sem hlut eiga að málinu hafi það ekki nú þegar verið gert.
    Varðandi sérstök framkvæmdaatriði eins og breytingar á vaktafyrirkomulagi eða vinnufyrirkomulagi þarna innan húss þá játa ég það hreinskilnislega að ég hef ekki þær upplýsingar á þessu stigi að ég geti svarað því hér og nú í þessum ræðustól enda var ekki um það spurt í hinni upphaflegu fsp.