Lokun deilda vegna sparnaðar á sjúkrahúsum í Reykjavík

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:05:12 (5995)



     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að biðlistar öldrunarsjúklinga eru mjög langir og þeir hafa því miður ekki styst nú eins og sjálfsagt flestir gætu verið sammála um að þyrfti og gerðu það raunar heldur ekki í tíð síðustu ríkisstjórnar, því miður.
    En ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs að nýju var sú að mér láðist að svara fjórðu spurningu hv. þm. í mínu fyrra svari varðandi það hve miklum fjármunum væri ráðstafað á árinu 1992 til breytinga á Landakoti til að hægt væri að koma þar af stað öldrunarlækningaþjónustu. Í byrjun sumars er ráðgert að taka í notkun þar 22 rúm á hjúkrunardeild og í því skyni var ákveðið að ráðstafa úr Framkvæmdasjóði aldraðra 10--15 millj. kr. í breytingar á húsnæðinu svo unnt verði að taka þá deild í notkun. Raunar kom fram í svari hv. þm. að hann bjó þegar yfir þessum upplýsingum. En ég vildi engu að síður láta þetta koma hér fram. Að öðru leyti ætla ég ekki að orðlengja frekar um ræðu hv. þm. áðan.