Fíkniefnaneysla í landinu

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:54:16 (6015)


     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það hefur líka löngum gert hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir með því að leggja fram í þinginu till. til þál. sem ástæða er til að vekja sérstaka athygli á. Það eru sannarlega alvarlegar upplýsingar sem okkur eru kunnar að aðeins 5--10% af þeim efnum sem berast til landsins finnist við tollleit. Afgangurinn, 90--95%, eru í umferð hér. Það þykir góður árangur, er mér sagt, ef löggæslan getur upprætt um 5--10% af þeim efnum sem eru í umferð. Þetta segir okkur að stórefla verður allar varnir gegn innflutningi og þar held ég að notkun hunds sé lykilatriði. Það þarf að koma því rækilega til skila að notkun hundsins við leit verði aukin og þá alls staðar á landinu, ekki bara í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, heldur um landið allt. Ég vil geta þess að ósk og krafa liggur fyrir um þetta frá Austurlandi og vona ég að hæstv. ráðherra íhugi það gaumgæfilega hvernig koma megi því fyrir m.a. á því landsvæði.