Fíkniefnaneysla í landinu

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:59:03 (6017)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt á þessu mjög mikilvæga viðfangsefni. Ég hygg að það hafi hvergi verið ofsagt hversu brýnt það er að okkur takist að fást við þessi viðfangsefni á þann hátt að við getum upprætt þessa meinsemd. Við erum auðvitað ekki eyland í þeim skilningi að við getum lokað okkur frá því sem er að gerast í veröldinni umhverfis okkur, en við höfum eigi að síður betri aðstæður eða ættum að hafa betri aðstæður en ýmsar aðrar stærri þjóðir til þess að glíma við þennan vanda og ráða niðurlögum hans. Þar þurfa að koma til mjög margvísleg verkefni. Ég tel að við verðum að leggja mjög mikla áherslu á fræðslu- og upplýsingastarf til þess að vinna að því fyrst og fremst að koma í veg fyrir að ungt fólk leiðist inn á þessa braut. Ég dreg ekki úr hinu, sem er mjög mikilvægt, að löggæsla og tollgæsla verði svo virk að unnt verði að stemma stigu við ólöglegum innflutningi þessara efna og koma fram ábyrgð þeirra sem þau verk stunda og tek undir ummæli manna sem hafa fallið að því leyti.
    Á þrengingatímum í ríkisbúskapnum kann að koma til þess að við þurfum að taka ákvarðanir um að forgangsraða verkefnum, láta ýmis verkefni sem við höfum sinnt til þessa víkja fyrir hinum mikilvægari og þar á meðal verkefnum sem unnin hafa verið á sviðum löggæslunnar. Ég tel að engum vafa sé undirorpið að á sviði löggæslunnar hljóti þessi mál að vera í hópi þeirra sem brýnast er að taka á og yrðu ofarlega á lista um forgangsröðun þeirra verkefna við þær fjárhagslegu aðstæður sem við búum nú við.