Eftirlit með veiðum erlendra skipa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:12:52 (6023)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir spurningarnar og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Það er auðvitað augljóst mál að við höfum verulega mikilla hagsmuna að gæta þarna utan 200 mílnanna og sjálfsagt mál að fara í það að rannsaka þessi mið frekar.
    Ég vil í sambandi við athugun á veiðiþoli búra, blálöngu og langhala, sem raunar er ekki nefndur í þessari fyrirspurn, láta það koma fram að þessar fisktegundir hafa veiðst á undanförnum árum í nokkrum mæli. Ég nefni það að á fyrri hluta síðasta áratugar var það ekkert óalgengt að togarar væru að koma með að landi býsna góða túra af blálöngum í einstökum veiðiferðum. Hins vegar virðist það vera þannig með þessa tegund og e.t.v. jafnvel um hinar tegundirnar líka að þær gefa sig til mjög staðbundið og alls ekki árvisst. Þess vegna er það nauðsynlegt að við rannsökum einmitt þessar tegundir sérstaklega í því skyni að átta okkur á hvert raunverulegt veiðiþol er á þeim.