Almenn hegningarlög

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 18:06:48 (6103)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það er aðeins tvennt sem ég vil nefna hér. Það er í fyrsta lagi orðið manneskja. Ég hélt satt að segja að við hefðum fallið frá því að breyta því ágæta orði. Ég fór að vísu af fundi hv. allshn. skömmu áður en honum lauk en mér líkar þetta orð mjög vel, það er í orðabók Blöndals og eldri orðabókum raunar líka. Í orðabók Menningarsjóðs þýðir manneskja einfaldlega maður og í sviga karl eða kona. Þetta er fallegt orð og manneskjulegt eins og síðasti ræðumaður sagði svo manneskjulega og skemmtilega. Mér finnst alveg óþarfi að vera að breyta þessu. En þetta er auðvitað ekki stórt mál.
    Ég skrifaði undir með fyrirvara --- þá vissi ég reyndar ekki um annað en að orðið manneskja fengi að standa. Þá var það hins vegar með svipuðum rökum og komu fram hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að því er vændi varðar. Ég held satt að segja að skoðun hennar geti verið rétt og þess vegna skrifaði ég undir með fyrirvara, hvað sem maður gerir svo í lokaatkvæðagreiðslu. En frv. styð ég að sjálfsögðu.