Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 22:00:36 (6116)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Fyrst vil ég biðja hv. þm. afsökunar á því að hafa lagt rangan skilning í þau orð sem hann lét falla um þjóðkunnan skepnuskap minn. Ég tók bara ekki eftir því að þau voru í gæsalöppum.
    Það er rétt að ég hef sagt að mér þætti að hér hafi verið haldnar allmargar ræður og hver annarri líkar. Það er ekkert að finnast. Það eru bara staðreyndir en ég er hins vegar ekki að kvarta og geri mér alveg grein fyrir því að menn vilja tjá sig og svo sem ekkert við því að segja þótt menn geri það kannski í svipuðu máli og taki á sömu atriðunum margir hverjir.
    Ég get ekki í andsvari svarað öllum atriðum sem hv. þm. nefndi. Ég get auðvitað beðið um orðið síðar í umræðunni en sumt af því sem hv. þm. nefndi og spurði um vil ég gjarnan athuga sérstaklega á milli umræðna og geri ráð fyrir að það sé heppilegra að ég svari sumu af því við 3. umr. og mun gera það.
    Ég nefndi í andsvari við ræðu hv. þm. Finns Ingólfssonar að ég held ég hafi sagt, ég var ekki með það skrifað hjá mér frá orði til orðs, að mér þætti sjálfsagt milli umræðna að sýna hv. þm. hvað breyting á eftirágreiðslunum, ef það ákvæði yrði fellt brott, mundi þýða. Ég ítreka að ég er reiðubúinn að láta athuga það sérstaklega í menntmn. á milli 2. og 3. umr. og þykir rétt að málið verði sérstaklega athugað á fundi í nefndinni milli umræðna.
    Það er ekki rétt hjá hv. þm. að þessi breyting minnki aðeins fjárþörfina á árinu 1992. Það er margt annað sem fylgir þessari breytingu eins og ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir. Það er ekki bara breyting á fjárþörf á árinu 1992.
    Varðandi talnaskilnings hans mun ég gera frekari grein fyrir honum síðar, væntanlega við 3. umr. Ég vil aðeins nefna varðandi framlag á fjárlögum árið 1992 að það er að mestu leyti greitt til lánasjóðsins. Það munu vera eftir ógreiddar eitthvað á þriðja hundrað millj. kr. Það er því ekki mikið sem færist á milli ára ef við erum að tala um slíkt.
    Eins og ég sagði mun ég koma við 3. umr. að öðrum atriðum sem hv. þm. nefndi.