Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 11:05:00 (6204)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Við 2. umr. um þetta frv. voru dregnar til baka annars vegar brtt. frá hv. þm. Magnúsi Jónssyni á þskj. 767 og hins vegar brtt. frá meiri hluta sjútvn. merkt tölulið 2 á þskj. 757. Báðar þessar tillögur lutu að frávikum eða undanþágum frá ákvæðum um fullvinnslu í smærri bátum er stunda línu- og handfæraveiðar. Í fjarveru formanns sjútvn. vil ég geta þess að þetta er gert á grundvelli þess skilnings meiri hluta sjútvn. að hér sé ekki verið að setja lög um það aldagamla form veiða hér við land sem er fólgið í því að fiskur veiddur á öngla á smærri bátum sé flattur eða saltaður um borð. Hins vegar er talið eðlilegt að sjútvrh. geti sett reglur um meðferð úrgangs og afskurðar um borð í þessum bátum auk þess að uppfyllt séu lög og reglugerðir um meðferð afla.
    Ég tel rétt, virðulegi forseti, að fram komi að þessi skilningur er sömuleiðis skilningur sjútvrn.