Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 12:53:38 (6218)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. er það svo að hluti af okkar fiskiskipaflota er gamall og það er eðlilegt að það eigi sér stað endurnýjun. Það er mjög æskilegt að hún gerist jafnt og þétt en ekki í stökkum. En við verðum líka að hafa í huga að við getum ekki talað um þessi efni eins og öll þau nýju skip sem hér er verið að tala um séu viðbót við flotann og auki sóknina í fiskstofnana. Í fyrsta lagi eru veiðarnar bundnar við aflamagn og fara ekki fram yfir það. Í annan stað hafa reglur um úreldingu skipa á móti nýjum skipum sem koma inn í flotann verið hertar verulega þannig að nú geta menn ekki lengur tekið inn mun stærri skip en þeir taka út úr flotanum. Þær reglur sem nú eru í gildi fela í sér að menn verða að taka út úr flotanum tonn á móti tonni, jafnmörg tonn og bætast við hann, þannig að nýju skipin eru að því leyti ekki viðbót við þann sóknarþunga sem er á miðunum þó að stundum geti ný skip falið í sér breytingu á sóknarmynstri vegna þess að menn eru að kaupa skip af annarri tegund og til annars konar veiða en ganga út úr flotanum. En það er ekki svo að þar sé um að ræða stækkun vegna þess að jafnmörg tonn fari út á móti.