Framhald umræðna um skýrslu um sjávarútvegsmál og um Lánasjóð íslenskra námsmanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 13:50:42 (6288)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill, áður en lengra er haldið, upplýsa að formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar komu á fund forseta rétt áður en þessi fundur hófst. Þeir gerðu þær athugasemdir sem hafa komið fram í þessari umræðu um gæslu þingskapa, m.a. varðandi skýrslu þá sem hv. 8. þm. Reykn. gerði að umtalsefni að væri ekki á dagskrá í dag, og spurðu hvers vegna svo væri ekki. Forseti gerði þingflokksformönnum grein fyrir því hvenær ætlunin hefði verið að setja þau mál á dagskrá. Þetta er ekki eina skýrslan sem bíður umræðu. Umræða um þessa skýrslu er hafin en aðrar skýrslur bíða umræðu og hafði forseti hugsað sér að reyna að taka einn dag í þau mál ásamt fleiri málum þingmanna. Ætlunin er að forseti hitti þingflokksformenn á eftir og ræði þessi mál. Einnig verða rædd mál varðandi LÍN. Þá verður hæstv. menntmrh. beðinn að koma þar ásamt hæstv. sjútvrh. til að ræða um hvernig leysa megi þessi mál. Forseti væntir þess að þetta sé nægjanlegt svar.