Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:49:36 (6311)


     Margrét Frímannsdóttir :
        Virðulegi forseti. Ég fagna þeim breytingum sem hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því það var hér fyrst til umræðu og tel þær allar til bóta. Ég vil þó beina einni spurningu til hv. nefndarmanna. Sú spurning snýr að 4. og 5. gr. frv. eins og það lítur út núna. Ég skil ekki mismuninn á refsiákvæðum sem þar eru og hvers vegna ekki er um eina greina að ræða. Í 4. gr. segir: ,,Hver sem notfærir sér geðveiki eða aðra andlega annmarka manns til þess að hafa við hann samræði eða kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.``
    Í 5. gr. segir: ,,Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili eða uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum.`` Ég get ekki séð annað en þarna sé að hluta verið að tala um nákvæmlega sama verknaðinn þó að refsiákvæðin séu alls ekki þau sömu.
    Í 7. gr. frv., síðustu málsgrein, segir þar sem talað er um að sæta fangelsi allt að sex árum: ,,Sömu refsingu varðar það ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna þeirrar blekkingar að um læknisfræðilega að aðra vísindalega meðferð sé að ræða.``
    Í mínum huga tengjast allar þessar þrjár greinar, 4., 5. og 7. gr. frv. Ég sé ekki hver er munurinn á refsiákvæðunum, annars vegar sex ár í 4. og 7. gr. en hins vegar fjögur ár í 5. gr. þar sem um umsjónarmann eða starfsmann í fangelsi eða geðsjúkrahúsi er að ræða. Nú reikna ég með að sá sem dvelur á geðsjúkrahúsi sé haldinn geðveiki eða einhverjir andlegir annmarkar hái honum og komi þá inn á 4. gr. Ég skil ekki hvers vegna refsiákvæðin eru ekki þau sömu og hvers vegna þetta er ekki allt undir einni og sömu greininni og refsiákvæðin þá sambærileg.