Eftirlit með opinberum fjársöfnunum

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:46:00 (6484)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Mér sýnist í fljótu bragði að sú löggjöf sem við höfum í dag eigi að tryggja að opinberir aðilar geti gengið eftir því að almenningur sem gefur fé til slíkrar söfnunar megi treysta að það renni til þess tilgangs sem ætlaður er. Það verk sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er að ganga úr skugga um að lögunum sé framfylgt og bréf ráðuneytisins á sl. sumri var liður í því af hálfu ráðuneytisins að ganga úr skugga um að lögreglustjórar fylgdu lögunum eftir og það er ástæða til að fylgja því fast fram. Það hygg ég að sé höfuðatriðið eins og sakir standa að sjá um að gildandi lögum sé í raun og veru framfylgt.