Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:03:16 (6562)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að hlýða á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson þegar hann steypir yfir sig stakki prestsins. Það er frábrugðið ræðum hans fyrr í dag. Hann er hættur að blóta eins og hann gerði í morgun, virðulegi forseti. En varðandi það sem hann hefur spurt formenn þingflokka stjórnarliðsins um er rétt að ég staðfesti það sem hv. þm. Geir Haarde sagði áðan. Það hefur engin ákvörðun verið tekið um það í stjórnarliðinu, það hafa ekki einu sinni farið neinar umræður fram um það, að útiloka sérstaklega mál þingmanna stjórnarandstöðunnar. Ég vildi vekja sérstaka eftirtekt hv. 8. þm. Reykn. á því að a.m.k. í þeim nefndum sem ég á aðild að hafa menn verið að samþykkja tillögur eða eru að vinna að því að samþykkja tillögur frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Ein slík tillaga hefur til að mynda verið samþykkt ef ég man rétt í allshn. Við höfum verið í viðræðum í iðnn. um að samþykkja eina tiltekna ágæta tillögu frá stjórnarandstöðunni og hver veit nema þær kunni að verða fleiri, ég veit það ekki.
    Það vill svo til að þar sem góð mál eru frá stjórnarandstöðunni er vilji fyrir því að afgreiða þau með afar jákvæðum hætti. Ég bendi til að mynda á að það liggur góð tillaga frá varaformanni Alþb. fyrir í sjútvn. Ég hef átt lítilvægar viðræður við þann ágæta þm., hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, um þá tillögu og ég hef líka átt viðræður við formann sjútvn. einmitt um ágæti hennar, og hvort ekki væri hægt með einhverjum hætti að veita henni brautargengi hér í þinginu.

    Ég vona að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson verði nú kyrrari og friðsælli og stilltari eftir þessu jákvæðu svör sem hann fær við sinni ræðu.