Umboðsmaður barna

145. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 17:11:00 (6566)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég þakka hlýleg og vinsamleg orð sem hafa fallið í minn garð. Mér sýnist þau bera vott um snoturt hjartalag, engu minna en fram kom í kunnum bréfaskiptum Steins Steinars og Gunnars Thoroddsens, þáv. borgarstjóra í Reykjavík, á þeim tíma og liggja fyrir í prentuðum heimildum.
    Ég skal taka það fram að gefnu tilefni að ég lýsti því við fulltrúa hv. allshn. og enn fremur við hv. flm., 14. þm. Reykv., að ég væri reiðubúinn að beita mér fyrir því að sifjalaganefnd mundi undanbragðalaust taka þetta mál til athugunar í sumar og þau álitaefni sem hv. nefnd telur nauðsynlegt að könnuð verði frekar áður en aðrar ákvarðanir verða teknar og við það mun ég að sjálfsögðu standa.
    Það er kórrétt, sem hv. 8. þm. Reykn. sagði hér, að mínu mati að hv. 14. þm. Reykv. hefur borið þetta mál mjög fyrir brjósti og það er hv. þm. vafalaust kært eins og hv 8. þm. Reykn. tók fram. Ég þykist líka vita að hv. 8. þm. Reykn. hefur á sinni tíð sem fjmrh. skoðað þetta mál ítarlega og gefið því allan gaum svo sem vert er út frá fjárhagslegri hlið málsins og við hljótum að meta hans miklu störf að málinu í þau skipti sem hv. flm. hefur áður borið það fram hér í þinginu.