Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:07:05 (6683)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það stoðar auðvitað lítt fyrir stjórnarandstæðinga að stilla málinu upp þannig að einstakar ákvarðanir núv. hæstv. ríkisstjórnar hafi orðið til að valda vanda í sauðfjárræktinni. Það er þannig að þegar sú ákvörðun var tekin með gerð búvörusamningsins að draga mjög verulega úr sauðfjárframleiðslunni var verið að leggja þungar byrðar á bændur landsins. Menn eiga ekki að reyna að setja upp einhvern blekkingarleik á hinu háa Alþingi og reyna að stilla málum upp þannig að þessi ákvörðun út af fyrir sig mundi ekki valda erfiðleikum í sveitum landsins. Þetta blasti við hverjum lifandi manni.
    Ég er ekkert að gagnrýna það meginmarkmið búvörusamningsins í sjálfu sér að aðlaga innanlandsframleiðsluna að innanlandsneyslunni. Ég taldi það vera mjög skynsamlegt markmið. Það má svo sem ýmislegt að búvörusamningnum sjálfum finna, en þetta markmið var ósköp eðlilegt. En menn eiga ekki að reyna að horfa fram hjá þeim mikla vanda sem það leggur á herðar íslenskri bændastétt að draga úr framleiðslunni með svo örum hætti og með svo miklum krafti eins og gert var ráð fyrir í búvörusamningnum.
    Aðalatriðið er þó þetta: Ég held að það sem fram undan er sé tími óvissu fyrir íslenska bændastétt. Nú mun skipta langmestu máli, eins og bændur sjálfir segja, hvernig til tekst um söluna og markaðsöflunina í landinu hvað sauðfjárræktina snertir. Það er mjög athyglisvert að lesa skrif sjálfra bændanna þar sem þeir segja allir þetta með einum rómi: Það sem máli skiptir er salan og ekkert annað en salan. Og ég vek sérstaka athygli á því hvernig bændur landsins úti um landið, á Hvammstanga og á Kópaskeri svo ég taki dæmi, hafa sjálfir upp á sitt eindæmi verið að reyna að efla markaðssókn íslensks landbúnaðar, íslenskrar sauðfjárræktar og það með góðum árangri. Ég held að við ættum að reyna að efla það og það yrði til að styrkja íslenskan landbúnað, ekki sá yfirdrepsskapur sem kemur fram í því að reyna að telja mönnum trú um að samdráttur eins og sá sem búvörusamningurinn gerði ráð fyrir hefði ekki íþyngjandi áhrif fyrir íslenska bændastétt.