Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:09:50 (6736)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að mér þykir mjög óeðlilegt ef það verður reynt að taka fyrir mál sem ekki er sátt um að taka fyrir einhvern tíma um nótt. Mér finnst það óheppilegt og ég held að það hljóti að vera hægt að ná sáttum um að hafa aðra tilhögun á því. Mér þykir illt að heyra ef á að draga það lengi að fá það á hreint hvort sá skilningur okkar að þetta eigi ekki að koma á dagskrá verði sameiginlegur. Ég get ekki ímyndað mér annað en sú verði niðurstaðan og ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða að komast til botns í því máli. Það varðar okkur sem ætlum að taka þátt í umræðum í þessu máli eða öðru töluverðu hvernig framvindan verður og hvernig það er fyrirhugað og því langar mig til þess að biðja forseta að greina okkur ögn nánar frá því hvernig þessu samráði verður háttað og hvort það verður þá ekki gert án tafar að ganga í það verk að fá á hreint hvort hér á að reyna að taka fleiri mál á dagskrá eða ekki. Ég tel það mjög óheppilegt.