Hvítbók ríkisstjórnarinnar

4. fundur
Miðvikudaginn 09. október 1991, kl. 15:40:00 (120)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Hv. 14. þm. Reykv. spurði um stefnuræðu hæstv. forsrh. ( GHelg: Stjórnarsáttmála.) Hún spurði hvort það væri von til þess með tilliti til stefnuræðunnar sem eigi að flytja á morgun hvort hv. þingmenn fengju að sjá stjórnarsáttmála sem fréttamenn hefðu verið að fjalla um en þingmenn ekki séð.
    Forseti getur að sjálfsögðu lítið svarað því hvernig fréttamenn hafa fengið stjórnarsáttmála sem ekki liggur fyrir prentaður. Því getur forseti ekki svarað, en það eru kannski einhverjir aðrir sem geta svarað því hvenær von er á stjórnarsáttmálanum tilbúnum til prentunar. En það þykist forseti vita að um leið og það gerist þá verði honum útbýtt til hv. þingmanna.
    Varðandi þetta þingskjal sem var verið að útbýta í dag kemur það forseta líka á óvart að stór hluti skjalsins er á enskri tungu og getur tekið fyllilega undir athugasemdir hv. 14. þm. Reykv. um að að sjálfsögðu eiga slík skjöl að vera þýdd og munu verða þýdd.