Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:18:00 (185)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er mér sannur heiður að verða hér fyrsti þingmaðurinn til þess að notfæra mér þennan nýja rétt þingskapalaga og ég þakka hv. þingmanni Svavari Gestssyni þetta tækifæri sem hann hefur gert mér kleift. Ég vil til endurgjalds lýsa því yfir fyrir þingmanninum að ég er reiðubúinn til að leiða hann og aðra þingmenn Alþb. hvenær sem er um rósagarð Alþfl. Og ég hygg raunar að sá þingmaður, sem ég hef hér ávarpað, hefði gott af því að ég settist niður með honum eitt eftirmiðdegi og færi með honum í gegnum stefnuskrá Alþfl. Ég tel reyndar líka að hann hefði gott af því að ég færi með honum í gegnum sögu Alþb., sérstaklega mál sem hann drap á hér fyrr í dag, skólagjaldamálið. Hann var raunar þá að tala um ágreining í Alþfl. Getur það verið að þessi þingmaður hafi með þeim hætti verið að reyna að draga fram að það eru nú ekki allir þingmenn Alþb. með hreinan skjöld í því máli? Ég vísa hér til þess að formaður Alþb. er í rauninni sá maður sem hóf umræðu um skólagjöld. Kann að vera að hv. þm. Svavar Gestsson sé með þessum hætti í fyrri ræðu sinni að draga fram ágreining við hann? Ég veit ekki. Hitt er rétt að skýrt komi hér fram til þess að Svavar Gestsson, hv. 9. þm. Reykv., vaði ekki í villu og svíma í þessum málum fremur en öðrum að þetta mál var tekið fyrir og rætt í þingflokki Alþfl. og var kynnt af heilbrrh. og rætt og kynnt af hans hálfu með öðrum atriðum sem hann hugðist koma fram í heilbrigðismálum. (Gripið fram í.) Fjárlögin voru ekki lögð fram með þeim hætti, einstakir liðir, til endanlegrar afgreiðslu eins og þér er kunnugt. ( SvG: Nú.)