Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:43:00 (290)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
     Frú forseti. Ég vil aðeins minna á það að ekki var ágreiningur um stöðugleikastefnu í gengismálum. Hitt var óhjákvæmilegt eftir að ytri aðstæður höfðu breyst til hins verra að aðlaga gengi krónunnar. Það varð hins vegar ágreiningur á haustmánuðum 1988. Þar varð ágreiningur um tillögu af minni hálfu um hóflega breytingu á gengi krónunnar sem Framsfl. hafnaði og sem Alþb. gerði að sinni stefnu þegar það gekk inn í nýtt stjórnarsamstarf. Þá hafnaði það nauðsynlegri, hóflegri aðlögun að breytingu á gengi krónunnar. Það var Framsfl. sem byrjaði á því að hafna þessari aðlögun, hafnaði þar með tillögu af minni hendi og hálfu Sjálfstfl. sem miðaði að því að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna. Alþb. gekk inn í nýtt stjórnarsamstarf á þeirri forsendu að þessari tillögu hefði verið hafnað af Framsfl. Það er því nauðsynlegt að forustumenn Alþb. taki þennan nýja hv. þm. og kenni honum nokkuð um forsögu þessa máls.